Háskóli Íslands

Hver er hræddur við handalausa manninn?

Ármann Jakobsson

Erndi flutt á fyrirlestraröðinni Listir, menning og fötlun Í Norræna húsinu 9 mars 2007.

 

Á sextándu öld óx kryppa á alræmdan steindauðan konung. Þá var Túdor-ættin komin til valda í Englandi, Rósastríðunum var lokið og seinasta konungi Jórvíkur-ættarinnar hafði verið úthýst. Hann var sakaður um að hafa myrt bróðursyni sína en það var engan veginn nóg. Smám saman varð hann líka kroppinbakur en engar samtímaheimildir benda þó til þess að hann hafi verið það í lifanda lífi. Kryppan óx á kónginn eftir andlát hans.

Hinn raunverulegi Ríkarður þriðji er líklega sekur um glæp og annan en saklaus af kryppunni og gæti þess vegna tekið sér í munn fleygt tilsvar persónunnar Ígors í kvikmyndinni Frankenstein yngri (Young Frankenstein); sá er með kryppu en þegar honum er boðin lækning við kryppunni (sem raunar flyst til á baki hans milli atriða) og svarar: Hvaða kryppa? (mín kynslóð hefur hlegið mikið af þessu tilsvari).

Mér skilst líka (þó að ég selji það ekki mjög dýrt því að ég fann það á netinu) – að kryppu hafi verið bætt við sumar myndir af konunginum og að sjá megi muninn á kryppunni og upprunalegu myndinni með nýjustu tækni í forvörslu. Hvað sem því líður mun kryppan vera tilbúningur. Og það sem mikilvægara er, frá sjónarhorni fötlunarfræðinnar: Hún er hluti af ófrægingarherferð gegn kónginum.

Þegar Shakespeare setur saman leikrit sitt um Ríkarð þriðja (líklega árin 1592–93) birtist okkur eitt frægasta fatlaða illmenni (hér mætti með nokkrum rétti nota orðiðfatlafól) sögunnar og flytur þessa ræðu:

En ég, sem var ekki' ætlaður til ásta,
né til að hampa hylli spegilsins,
ég, klúr í sniðum, sneyddur þokkans valdi
sem reisir kamb við káta lipurtá,
ég, firrtur þessum fagra gjörvileik,
svikinn um vöxt af fláttskap forlaganna
og sendur fyrir tímann, vesöl vansmíð
hálfköruð inní heimsins andardrátt,
í þokkabót svo bæklaður og haltur
að rakkar gelta að sjá mig hökta hjá,
nei, ég hef enga sælli dægradvöl
á þessum mildu friðarpípu-tímum
en laumast til að líta á skuggann minn
ef sólin skín, og sjá minn óskapnað.
(W. Shakespeare, Leikrit VI. Helgi Hálfdanarson þýddi. Rvík 1975)

Það má velta fyrir sér hvort Ríkarður í leikritinu verði illmenni vegna þess að hann er fatlaður. Svo afskræmdur maður getur ekki orðið elskhugi og þarf að gerast þrjótur. En ef það er fötlunin sem gerir hann að illmenni, þá má það heita kaldhæðnislegt því að illmennskan virðist áður hafa gert hann fatlaðan; þar sem talið er að kryppan hafi verið hluti af áróðursstríði gegn Ríkarði á sextándu öld.

Sú áróðursherferð er í nánum tengslum við aldagamlar hefðir og hugmyndir um konungsvald. Þegar konungar voru settir af voru þeir iðulega blindaðir eða vanaðir (eða geltir). Í Miklagarði voru þess jafnvel dæmi að skorin væru nef af konungum til að hindra að þeir kæmust aftur á valdastól. Hvers vegna? Jú, konungur mátti ekki að vera fatlaður og síst af öllu afskræmdur í andliti. Ekki lét Jústíníanus annar (hann var uppi frá 669 til 711 e.kr.) það þó stöðva sig og endurheimti völd sín. Nefndist hann síðan „rhinotmetos“ eða hinn nefskorni og var mjög illa þokkaður, eins og Ríkarður þriðji.

Þetta er hinn félagslegi veruleiki á bak við eitt frægasta fatlaða illmenni sögunnar. En hvaða áhrif hefur fötlunin á persónu Ríkarðs þriðja? Jú, hann er ekkert venjulegt illmenni. Hann segist sjálfur vera ófullgerð manneskja sem er algeng hugmynd um fatlaða. Fullkomið og ófullkomið eru mikilvægt andstæðupar í mannlegri hugsun og fötluðum er gjarnan (ja, raunar yfirleitt, ekkert síður á okkar tímum en árið 1593) vísað burt úr heimi hinna fullkomnu. Annað mikilvægt andstæðupar er brotinn og heill. Ásamt þeim veiku og ellimóðu er fatlaða manneskjan óheil; brotin. Og flest bendir til að það sé eitt af því sem fólk óttast mest. Sem skýrir að hluta til áhrifamátt hinna fötluðu illmenna.

Hið fatlaða illmenni er ekki aðeins illmenni. Það er í raun skrímsli. Það er afskræmd, ófullkomin, brengluð mannvera og fötlunin er birtingarform þess. Ef fatlaða illmennið er mjög afskræmt mætti jafnvel flokka það með finngálknum, þ.e. skrímslum sem eru hálf manneskja og hálft dýr (en slík finngálkn eru algeng tegund af skrímslum, bæði að fornu og nýju og má þar nefna sfinxinn, kímeruna, kentára og fána, griffininn, hafmeyjur, mínótárinn, og svo mætti lengi telja). Kryppan gerir Ríkarð þriðja að hálfri manneskju, finngálkni. Sjálf er kryppan ómennsk eða dýrsleg og þannig er litið á sýnilega og afskræmandi fötlun. Það er engu líkara en að maður sem er ekki heill sé ekki lengur maður, kryppa getur valdið því að mannsmyndin hverfur.

Hvers vegna var fílamaðurinn (úr samnefndri kvikmynd) kallaður fílamaðurinn og hvers vegna voru dýralíkingar svona algengar þegar lýsa átti ýmsu alvarlega fötluðu fólki sem haft var til sýnis í fjölleikahúsum og svokölluðum ókindasýningum (freak shows) á 19. og 20. öld? Jú, það er vegna þess að sjálfsmynd mannsins er sú að hann sé fullkominn og heill en öll fötlun minnkar mennsku hans, rétt eins og blinda gerði konung að minni konungi fyrir þúsund árum.

Ég er ekki aðeins að tala hér um fortíðina núna þó að leikritið um Ríkarð þriðja sé vissulega rúmlega fjögurra alda gamalt. Ríkarður er kannski dauður en hið fatlaða illmenni er sprelllifandi. Í nýjustu myndinni um James Bond fer blóð skyndilega að leika úr auga illmennisins, Le Chiffre. Í næstu James Bond-kvikmynd þar á undan reyndist illmennið vera tilbúið með skurðaðgerð; það er kínverskt en lítur út eins og enskur yfirstéttarmaður.

Og dæmin eru fleiri í kvikmyndunum um James Bond. Hver man ekki eftir hinum mállausa Oddjob? Eða stálkjaftinum ógurlega? Svarta manninum síhlæjandi með krókinn? Og svo var það auðvitað Dr. No í fyrstu James Bond myndinni. Dr. No hafði misst báðar hendur sínar og í mögnuðu kvöldmatarboði í bíómyndinni kemur skyndilega í ljós að hann er með gervihendur. Áhorfandinn hrekkur við. Dr. No er ekki maður heldur skrímsli.

Hver er hræddur við handalausa manninn? Heiðarlega svarið er: Við flest. Við erum skíthrædd við hann, eins og við erum hrædd við fötlun. Ekki síst vegna þess að við teljum okkur ekki óhult undan henni. Fötlun táknar hverfulleika hinnar ímynduðu fullkomnunar okkar og þess vegna ógnar fatlaða manneskjan þeirri ófötluðu.

Þegar ég var barn var ég nánast lamaður af ótta yfir Húsinu á sléttunni. Eins og margir muna varð María Ingalls, eldri systir Láru, blind af skarlatssótt en fyrst versnaði sjónin smátt og smátt. Sjálfur var ég nærsýnn og sjónin versnaði hratt með hverju ári. Ég þóttist vita hvert stefndi og var svo hræddur að ég þorði ekki að spyrja og fullorðna fólkið skildi ekki að ég var hræddur við blindu þannig að enginn hughreysti mig. Svo loksins þorði ég að spyrja og síðan hef ég ekki verið fatlaður. Á öld gleraugna er nærsýni ekki skilgreind sem fötlun (þó að hún geti auðvitað verið það) og mér hefur aldrei fundist hún vera það (nema einu sinni þegar gleraugun brotnuðu á ferðalagi og ég sá ekki neitt).

Ótti af þessu tagi er drifkrafturinn á bak við fötluð illmenni og ég ætla að leyfa mér að nota áfram hið persónulega sjónarhorn og rifja upp nokkrar mikilvægar barnabækur frá því ég var strákur. Í Gulleyjunni var Simmi litli (Jim Hawkins á frummálinu) ofsóttur af ýmsum sjóræningjum. Einn hét Svarti Seppi og við vorum ekki verulega hrædd við hann. Mun óhugnanlegri var heimsókn Páls blinda sem greip í úlnlið Simma litla og reyndist fílsterkur. Af hverju var Páll blindi svona hræðilegur? Ég læt ykkur um að svara því. Og aðalillmennið í sögunni er með tréfót – þó að vissulega sé þar á ferð aðlaðandi skálkur en ekki beinlínis skrímsli.

Sjálfsagt hafa margir sjóræningjar verið fatlaðir. Þeir voru bardagamenn og líf í orustum getur kallað á missi ýmissa útlima — eftir fyrri heimsstyrjöldina þurftu sumir afskræmdir hermenn að vinna fyrir sér með því að sýna lemstrun sína í fjölleikahúsi. Annar frægur sjóræningi úr bernskunni var svo aðalóvinur hins síunga Péturs pan – og hvað hét hann? Kapteinn Krókur. Hér er enn eitt fatlaða illmennið á ferð.

Og þá eru ótalin illmennin úr sögum Enid Blyton sem nutu mikilla vinsælda hér á landi árin og áratugina eftir stríð. Í Ævintýrahöllinni er eitt af þeim kallað „sá órótti“ — örið dugar til að bera kennsl á óvininn. Í Dularfulla hálsmeninu kemur á daginn að þjófurinn þekkist á því að annað augað er blátt en hitt brúnt. Og þá er þess ógetið að illmenni Enid Blyton eru gjarnan varaþunn. Ekki veit ég af hverju en óeðlilega þunnar varir eru skýrt dæmi um illsku í heimi Enid Blyton þó að ekki sé hægt að fá örorku skilgreinda út á þunnar varir í nútímanum.

Ein skýring á þessu er vitaskuld að þessar sögur eru yfirborðslegar og sýnileg fötlun eða sérstaða er hluti af þeim pakka. Þetta sést vel á sögunni Kim og ilsigni maðurinn (úr annarri feykivinsælli barnabókaritröð) en þar þekkist þrjóturinn einmitt á ilsiginu — sem er nú kannski of hjákátlegt til að þola samanburð við eineygða, handalausa og örótta skálka. Á einhverju þurfa skúrkarnir að þekkjast svo að börnunum geti liðið vel. Einhvernveginn frétti ég það sem strákur að bílar morðingja þekktust á því að á skottinu væru þrír blóðblettir. Þessu trúði ég beinlínis þegar ég var sjö ára. Hvernig ég kom þessu heim og saman skil ég ekki lengur. Og ég get ekki heldur svarað því af hverju þeir voru þrír, ekki reyna að spyrja á eftir.

En auðvitað er fötlunin ekki einungis leið til þess að bera kennsl á illmennin heldur líka til að framandgera þau. Og þannig er það ekki bara í barnabókum heldur líka vinsælum skáldsögnum fyrir fullorðna. Hringjarinn í Frúarkirkju var vitaskuld kroppinbakur og hann var eiginlega ekki maður heldur skrímsli. Hið sama gildir um Óperudrauginn. Þetta voru vinsælar sögur fyrir fullorðna á 19. öld og alla hina 20.; ég veit ekki betur en Óperudraugurinn sé einn vinsælasti söngleikur okkar tíma. Samúðin með fatlaða skrímslinu er heldur meiri í þessum sögum en í James Bond myndunum. En samt eru fötluðu mennirnir skrímsli og eiga sér ekki viðreisnar von.

Og hvernig er þetta í hryllingsmyndum nútímans? Eins og barnabækurnar höfða þær alls ekki til vitsmunanna heldur hvatanna. En hryllingsmyndir þurfa ekki að vera vitrænar til að snerta við hræðslu sem býr í áhorfandanum þó að það hjálpi auðvitað. Jafnvel þó að auðvelt sé að hafa skömm á slíkum myndum í dagsljósi hendir það okkur öll að vakna lömuð af ótta eftir martröð sem er eins og hallærislegasta Hollywoodhryllingsmynd, þar sem skelfingin hefur sveigt rökvísina undir sig.

Og hver ræðst á mann í þessum martröðum, bæði þeim frá Hollywood og í draumunum okkar? Jú, einn frægasti skúrkurinn heitir Leatherface (Leðurfésið) og hann á sér marga bræður, sem allir eru afskræmdir af ljótleika og höfða greinilega til hræðslu okkar við allt sem er fatlað, brotið og ófullkomið. Hræðslu sem er frekar líkamleg en vitsmunaleg og sem í raun og veru er þvert á upplýst viðhorf okkar nútímamannanna. Fólkið sem æpir af hræðslu yfir Leatherface er ekki á móti fötluðum í dagsbirtu. Aðdáendur James Bond myndu seint viðurkenna að þeir hötuðu handalausa. En samt virkar þessi formúla.

Við erum auðvitað hrædd við það sem er öðruvísi, jafnvel þó að varla sé hægt að tala um fötlun. Á netinu fann ég mjög langan lista yfir illa albínóa (eða hvítingja, ég þekki ekki kurteisa orðið) í heimsbókmenntunum. Hann var raunar svo langur að ég trúði varla mínum eigin augum. Hann var svo langur að mér brá og ég gat ekki annað en hugsað: Hvað segir þetta um okkur sem lesum bækur? Hvers vegna eru svo margar vinsælar – og ég ítreka vinsælar – bækur og kvikmyndir fullar af illmennum sem við skilgreinum sem dýrsleg, afskræmd, fötluð og öðruvísi, þrátt fyrir að við þykjumst vera fordómalaus gagnvart fötluðum?

Hinar miklu vinsældir fatlaða illmennisins koma í veg fyrir að við getum varpað frá okkur fordómunum. Við getum ekki sagt: Það eru hinir sem eru með fordóma. Það er illa upplýsta fólkið, ómenntaða fólkið. Við erum greinilega öll með fordóma gagnvart fötluðu fólki en kannski fyrst og fremst gagnvart fötluninni sjálfri. Það er hvergi skýrara en í þessu tilviki að fordómarnir eru grundvallaðir á hræðslu, á frumstæðum ótta við ófullkomnun.

Það gleymist stundum hversu mikið skilgreiningaratriði fötlun er. Ég er sjálfur mikill aðdáandi Stjörnustríðs. Helsta illmennið þar andar eins og asmasjúklingur í kasti – og reynist þegar betur er gáð vera háð tiltölulega þróaðri gerð af öndunarkúlu, búningi sem það má ekki yfirgefa. En þó að höfuðillmenni Stjörnustríðs sé annarlegt er það líka nálægt, það er þrátt fyrir allt faðir aðalsöguhetjunnar, Svarthöfði. Þar að auki er það nálægt mér vegna þess að ég er líka með asma. Asmi er ekki mjög alvarleg fötlun í nútímanum – og þó eru býsna mörg illmenni með asma, nógu mörg til að það verði að telja hann með – og ég hef tamið mér að líta ekki á hann sem fötlun. Þrátt fyrir nærsýnina og asmann svara ég alltaf nei þegar ég er spurður um hvort ég sé fatlaður, við myndum líklega gera það fast. En kannski ekki með réttu því að bilið milli fatlaðs og ófatlaðs er stundum ekki breitt. Og asmi illmennisins minnir okkur á að asmi getur verkað sem fötlun í afþreyingarsögu. Asmi getur verið hluti af vel heppnuðu illmenni. Enda getur andardráttur asmasjúklings orðið verulega hræðilegur, ekkert síður en kryppa.

Ég er ekki fullkominn. Kannski er það fyrsta skrefið gegn fordómunum að segja það við sjálfan sig. Ég er nærsýnn, ég er með asma, ég er þunglyndur, ég er með skapgerðargalla. Allir hafa einhverja galla og hræðslun við fötlun er kannski birtingarmynd óskaplegrar hræðslu við að horfast í auga við gallana. Kannski er það ímyndun okkar að við séum heil heilsu. Kannski eru fatlaðir ekkert öðruvísi. Einn er kannski heyrnarlaus en annar er skilningslaus og þann þriðja skortir ímyndunarafl. Hver er mesta fötlunin?

Andspænis hinum fötluðu illmennum í afþreyingarsögum nútímans (og þegar ég segi saga meina ég líka kvikmyndir og sjónvarpsþætti) mætti tefla annars konar fötluðu fólki. Guðirnir eru nefnilega líka fatlaðir. Óðinn er sjálfur eineygður, sonur hans er blindur, Týr er einhentur, Heimdallur hefur hugsanlega látið heyrn sína. En fatlaður guð er samt fatlaður. Fötlunin virðist ekki rýra krafta hans á neinn veg. Og kannski er það þetta sem guðirnir geta en við getum ekki. Þeir geta viðurkennt að þeir séu ekki heilir og ekki fullkomnir og samt geta þeir verið guðir. Goðsögurnar eru því vísbending um annan hugmyndaheim sem við höfum þó ekki fullan aðgang að, þar sem fötlun er ekki endilega veikleiki illmennisins heldur jafnvel styrkur guðsins. Þetta sjáum við ekki aðeins í goðsögum Snorra-Eddu heldur líka í sjálfri Njáls sögu þar sem söguhetjan er öðruvísi en aðrir karlmenn af því að henni vex ekki skegg.

Ef til vill væri það verðugt verkefni nútímamanna sem vilja sigrast á fordómum sínum gegn fötlun að segja sem svo: hin fullkomna manneskja er goðsögn. Við erum öll brotin. Við erum öll óheil. Og samt erum við heilbrigð því að manneskjan er gölluð og þó heilbrigð, hún lifir með göllum sínum, bæði stórum og smáum. Stundum eru þeir smávægilegir eins og gleraugu sem kosta að vísu bæði tíma og örlitla fyrirhöfn, svo lítilfjörlega að sá sem notar gleraugu hættir von bráðum að taka eftir henni. Aðrar fatlanir eru svo alvarlegar að það er ekki hægt að leiða þær hjá sér og sumar svo alvarlegar að þær hljóta að voma yfir öllu lífinu. En samt er fötluð manneskja ekki jafn stórkostlega öðruvísi, jafn framandi og fötluðu illmennin í sögunum gefa til kynna. Það er rangt að flokka fólk í fatlað og ófallað. Kannski er nær að spyrja alla: Hver er þín fötlun?

Það þýðir ekkert að vera reið við handalausa illmennið úr Bondmyndinni því að við bjuggum hann sjálf til úr ótta okkar og vanmætti, gagnvart hugmyndinni um fötlun. Sá ótti getur líka verið lamandi, ekkert síður en fötlunin sjálf.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is