Háskóli Íslands

Eldri verkefni

Börn, ungmenni og fötlun  - rannsókn á æsku og uppvexti fatlaðra barna og unglinga

Hér er um að ræða nýtt verkefni sem hófst í byrjun árs 2006. Rannsóknin er styrkt af Rannís, Rannsóknasjóðs Háskóla Íslands og Rannsóknasjóði Háskólans á Akureyri. Áætlað er að þessi rannsókn verði sú viðamesta sem hið nýja rannsóknasetur sinnir á næstu árum. Margir MA nemendur og tveir doktorsnemar í fötlunarfræðum munu tengja lokaverkefni sín þessari rannsókn auk þess sem undir hatti hennar verður safnað upplýsingum sem nú þegar eru fyrir hendi, m.a. nokkrar rannsóknir nýútskrifaðra meistaranema. Verkefnisstjóri er Rannveig Traustdóttir prófessor.

Rannsóknin Börn, ungmenni og fötlun beinist að lífi og reynslu fatlaðra barna og ungmenna, og fyrstu fullorðinsárum þeirra. Markmið rannsóknarinnar er að afla þekkingar á sjónarhorni og skilningi barna og ungmenna á fötlun, skerðingu, þjónustukerfinu, félagstengslum tengslum við fjölskyldu, jafningja og fagfólk, og hvernig þau takast á við og semja um fötlun í daglegu lífi og samskiptum við aðra. Rannsóknin beinist einnig að þeim félagslegu og menningarlegu þáttum sem móta líf fatlaðra barna og ungmenna, með sérstakri áherslu á þá þætti sem styðja við eða hindra samfélagsþátttöku þeirra. Rannsóknin byggir á eigindlegum aðferðum; þátttökuathugunum og viðtölum við fötluð börn 6 – 15 ára og ungmenni á aldringu 16 – 20 ára. Þátttakendur verða valdir með það fyrir augum að endurspegla sem mesta breidd með tilliti til félagslegra og efnahagslegra þátta, fjölskylduaðstæðna, tegundar og eðli skerðinga. Rannsóknin mun einnig ná til fullorðins fólks og frásagna þeirra af að alast upp fötluð. Niðurstöður rannsóknarinnar munu endurspegla raddir og reynslu fatlaðra barna og ungmenna, og er framlag til þróunar kenninga um barnæsku og fötlun jafnframt því að verða grundvöllur að tillögum um stefnumótun, skipulag og framkvæmd þjónustu við fötluð börn og ungmenni.

Fatlaðir háskólastúdentar

Er lítið rannsókna- og þróunarverkefni sem hefur verið sinnt af Rannveigu Traustadóttur og nemendum hennar undanfarin ár. Með tilkomu rannsóknaseturs í fötlunarfræðum og verkefnisstjóra sem getur unnið við styrkumsóknir í innlenda og erlenda rannsóknasjóði skapast mögulegt að fara af stað með stærra verkefni á þessu sviði. Þegar hefur verið lagður grunnur að norrænu samstarfi á þessu sviði (við fatlað fólk, fræðimenn og námsráðgjafa á öðrum norðurlöndunum) og verður íslenski hlutinn unnin í samstarfi við Námsráðgjöf Háskóla Íslands.

Fatlaðar konur

Fatlaðar konur, meðal annars konur í Kvennahreyfingu Öryrkjabandalags Íslands, hafa vakið athygli á því að þörf sé á að vinna rannsókn sem beindist að því að kortleggja líf og aðstæður fatlaðra kvenna á Íslandi. Hér er um áhugavert og mikilvægt verkefni að ræða, sem er á hugmyndastigi og fjárveitingar og starfskraftar munu skera úr um hvort unnt verður að sinna því á næstu árum. Bæði Rannveig Traustadóttir og Hanna Björg Sigurjónsdóttir hafa um árabil unnið að rannsóknum á þessu sviði og búa því yfir mikilli reynslu og þekkingu sem myndi nýtast einkar vel í rannsókn sem þessari.

Fatlaðir foreldrar, sjálfsmyndir, fjölskyldulíf og félagsleg staða

Rannsóknarverkefni 2005-2009. Markmið rannsóknarinnar er að rýna í stöðu fatlaðra foreldra í íslenskri menningu og samfélagsgerð út frá; (a) ríkjandi menningarlegum gildum og ráðandi orðræðu um fjölskyldur og fötlun, (b) aðgengi að foreldrahlutverkinu, og c) reynslu og upplifun fatlaðs fólks. Sérstök áhersla er lögð á að varpa ljósi á réttindi fatlaðra foreldra, út frá gildandi mannréttindasáttmálum, eins og þau birtast í opinberri löggjöf og samfélagslegu fyrirkomulagi, skilning á fötluðum foreldrum eins og hann birtist í orðræðu fjölmiðla og sjálfskilning og sjálfsmyndir fatlaðs fólks sem foreldra og tengingu þess við samfélagslegt fyrirkomulag og menningarlega orðræðu.
Styrkt af Rannsóknarsjóð HÍ og Nýsköpunarsjóð námsmanna.
Verkefnisstjóri: Hanna Björg Sigurjónsdóttir.

Fjölskyldur fatlaðra foreldra

Hanna Björg Sigurjónsdóttir lektor í fötlunarfræðum hefur undanfarin ár unnið að doktorsrannsókn um seinfæra foreldra, líf þeirra og aðstæður, rétt til foreldrahlutverks og fjölskyldulífs og þann stuðning sem þeim og fjölskyldum þeirra stendur til boða. Hanna Björg varði doktorsritgerð sína við Sheffield University þann 30. nóvember 2005. Hanna Björg mun vinna áfram að rannsóknum á þessu sviði. Í undirbúningi er rannsókn um fjölskyldur fatlaðra foreldra í samstarfi við ungt fatlað fólk.

Foreldraþjálfun og foreldrafræðsla

Hér er um að ræða nýtt rannsóknarverkefni sem er í burðarliðunum og snýr að uppeldislegum samskiptum í fjölskyldum þar sem foreldrar eru seinfærir. Markmið verkefnisins er að hanna og þróa námskeið og fræðsluefni fyrir seinfæra foreldra sem tekur tillit til sérstakra námsþarfa þeirra. Verkefnið er liður í því að uppræta mismunum gagnvart fötluðum foreldrum samanber 23. grein Sáttmála sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem lýtur að virðingu fyrir heimilis- og fjölskyldulífi. Verkefnið er samstarfsverkefni tveggja rannsóknarsetra (Rannsóknarseturs í fötlunarfræðum og Rannsóknarsetursins lífshættir barna og ungmenna) og byggir á niðurstöðum rannsókna (Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur og Rannveigar Traustadóttur) um seinfæra foreldra og  fjölskyldustuðning og niðurstöðum rannsókna Sigrúnar Aðalbjarnardóttur um leiðandi uppeldishætti. Félagsmálararáðuneytið og sjóður Odds Ólafssonar (ÖBI) styrkja verkefnið að hluta. Verið er að vinna að styrkumsóknum og er áætlað að verkefnið geti hafist um áramótin 2009-2019.
Verkefnisstjóri: Hanna Björg Sigurjónsdóttir.

Ungt fatlað fólk: Sjálfstætt líf, sjálfstæð búseta 

Hrefna K. Óskarsdóttir iðjuþjálfi hefur lokið MA námi í fötlunarfræði undir handleiðslu Rannveigar Traustadóttir. Lokaritgerð Hrefnu var unnin í samvinnu við Öryrkjabandalag Íslands og ber heitið Ungt fatlað fólk: Sjálfstætt líf, sjálfstæð búseta. Þessu verkefni, hefur verið haldið áfram og verið tengt verkefninu Börn, ungmenni og fötlun.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is